Eldhugar selja merki til stuðnings alnæmissmituðum

28. nóv. 2007

Ungmennahreyfing Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu mun þann 1. desember, frá kl. 14 – 16, selja merki með mynd af alnæmisborðanum í Smáralind. Eldhugar eru ungmenni á aldrinum 13-16 ára af íslenskum og erlendum uppruna sem hittast í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins á fimmtudögum kl. 17.30 - 19.00. Eldhugar vinna skemmtileg og skapandi verkefni sem miða að því að byggja betra samfélag án mismununar og fordóma. Unnið er með hugtök eins og vinátta, virðing og umburðarlyndi í gegnum ljósmyndun, leiklist, kynningar á erlendum menningarheimum og margt fleira. Sjálfboðaliðar Rauða krossins taka þátt í og stýra starfinu í samstarfi við fagfólk á ýmsum sviðum sem einnig gefur vinnu sína.

Merkin eru handgerð úr perlum og eru búin til af fólki sem er smitað af alnæmi og tekur þátt í sjálfshjálparhópum í Malaví. Þetta er mjög fátækt fólk og verður ágóða af merkjasölunni varið til þess að efla starf með alnæmissmituðum í Malaví auk þess sem félagar í sjálfshjálparhópunum fá hluta af ágóðanum til eigin nota.

Í síðustu samveru Eldhuga byrjuðu krakkarnir að perla nælu til eigin nota og fengu þannig góða tilfinningu fyrir vinnunni að baki merkjunum sem á að fara að selja. Nú er talið að tæpar 40 milljónir manna séu smitaðar af alnæmisveirunni og munu fleiri líða vegna alnæmis, t.d. um 4,6 milljónir barna í sunnanverðri Afríku sem orðið hafa munaðarlaus.

Áhugasamir sem vilja taka þátt í Eldhugum eru eindregið hvattir til að hafa samband við Kópavogsdeild Rauða krossins í síma 554 6626 eða á kopavogur@redcross.is.