Alþjóðlegi alnæmisdagurinn 1. desember

30. nóv. 2007

Laugardaginn 1. desember kl. 14-16 munu Eldhugar ásamt öðrum ungmennum í Rauða kross starfi selja rauð alnæmismerki í Smáralind sem búin eru til af fólki sem tekur þátt í sjálfshjálparhópi smitaðra á vegum Rauða krossins í Malaví og rennur allur ágóði af sölunni til hópsins.

Fulltrúi frá alþjóðasviði Rauða krossins fræddi Eldhuga fyrr í vetur um alnæmi í sunnanverðri Afríku og starf Rauða krossins á þeim slóðum. Einnig komu læknanemar í heimsókn og voru með fræðslu um kynsjúkdóma og þar á meðal alnæmi.

Rauði kross Íslands minnir á þann mikla vanda sem alnæmi hefur skapað í fátækustu samfélögum heims. Nú er talið að milli 30 og 40 milljónir manna séu smitaðar af alnæmisveirunni og mun fleiri líða vegna alnæmis, til dæmis um 4,6 milljónir barna í sunnanverðri Afríku sem orðið hafa munaðarlaus.

Stjórn félagsins samþykkti ályktun á fundi sínum 16. nóvember sl. þar sem segir meðal annars:

„Athygli er vakin á því starfi sem unnið er innan Rauða kross hreyfingarinnar til að aðstoða fólk vegna alnæmis og koma í veg fyrir frekara smit. Rauði kross Íslands styður starf sjálfboðaliða og starfsfólks Rauða krossins í Malaví, Mósambík og Suður-Afríku þar sem heimamenn aðstoða þá sem líða vegna alnæmis.

Rauði kross Íslands hvetur íslensk stjórnvöld til vinna að framgangi þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um að bæta heilsufar fólks í fátækustu ríkjum heims. Sérstaklega er bent á markmiðin um að snúa við útbreiðslu alnæmis fyrir árið 2015 og að vinna að því að veita fátækum þjóðum aðgang að mikilvægum lyfjum."

Kjörorð Alþjóðlega alnæmisdagsins árið 2007 er „forysta”. Kjörorðið vísar ekki aðeins til þess starfs sem ríkisstjórnir, heilbrigðisyfirvöld og félagasamtök eiga fyrir höndum í baráttunni gegn alnæmi heldur einnig til almennings í þeim samfélögum þar sem vandinn er mestur. Höfuðáhersla Alþjóða Rauða krossins er að hjálpa samfélögum að taka frumkvæðið í baráttunni gegn alnæmi og vinna gegn ójafnri stöðu kynjanna en tugir milljóna kvenna þurfa að þola ofbeldi og misnotkun sem stofnar þeim í mikla hættu.