Húsfyllir á fagnaði vegna alþjóðadags sjálfboðaliðans

6. des. 2007

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar fylltu sjálfboðamiðstöðina á fagnaði sem haldinn var í gærkvöldi í tilefni af alþjóðadegi sjálfboðaliðans. Sjálfboðaliðar og gestir þeirra áttu notalega stund saman, hlýddu á upplestur, söng og tónlist og nutu góðra veitinga. Garðar H. Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar, greindi frá því í stuttu ávarpi að sjálfboðaliðum deildarinnar hefur fjölgað verulega á árinu eins og á undanförnum árum.

Samningsbundnir sjálfboðaliðar voru 175 fyrir réttu ári en þeim hefur síðan fjölgað í 240 eða um 37 af hundraði. Garðar þakkaði sjálfboðaliðum fyrir frábært framlag þeirra á árinu og sagðist vonast til að sjá sem flesta að störfum á nýju ári.

Boðið var uppá fjölbreytta og áhugaverða dagskrá. Edda Andrésdóttir, fréttamaður og rithöfundur, las úr bók sinni, Í öðru landi, og spunnust í kjölfarið talsverðar umræður um efni hennar. Sigurður Pálsson rithöfundur las einnig úr Minnisbók sinni sem í gær var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þá léku nemendur úr Tónlistarskóla Kópavogs fyrir gesti og nemendur Söngskóla Reykjavíkur sungu. Eldhugar Kópavogsdeildar lásu jólasögu við góðar undirtektir og loks stjórnaði Jón Ingi Bergsteinsson fjöldasöng.

Hefð hefur skapast fyrir því hjá Kópavogsdeild að sjálfboðaliðar gera sér glaðan dag á alþjóðadegi sjálfboðaliðans, 5. desember, og hefur aðsókn jafnan verið góð.

Árið 1985 tilnefndu Sameinuðu þjóðirnar 5. desember alþjóðlegan dag sjálfboðaliða. Tilgangurinn var sá að vekja athygli á framlagi sjálfboðaliða til samfélagsins. Rauði krossinn er stærsta sjálfboðahreyfing í heimi.