Nemendur í MK afhenda afrakstur fatamarkaðs

10. des. 2007

Nemendur frá Menntaskólanum í Kópavogi afhentu á dögunum fulltrúa frá alþjóðasviði Rauða kross Íslands, Gesti Hrólfssyni, 95 þúsund krónur sem söfnuðust á fatamarkaði sem nemendurnir stóðu fyrir í nóvember. Peningarnir renna í hjálparsjóð Rauða krossins sem er notaður til að efla menntun fátækra ungmenna í Mósambík.

Fatamarkaðurinn var lokaverkefni nemendanna í áfanga um sjálfboðið starf hjá Menntaskólanum í Kópavogi en áfanginn er kenndur í samvinnu við Kópavogsdeild Rauða krossins. Menntaskólinn í Kópavogi er enn sem komið er eini framhaldsskólinn á landinu sem býður upp á þess háttar áfanga. Í áfanganum hafa nemendurnir unnið sjálfboðin störf fyrir deildina, svo sem starf með ungum innflytjendum í Enter, Eldhugunum og aðstoð við langveik börn í Rjóðrinu.