Litlu jólin hjá Enter-krökkunum

13. des. 2007

Í gær var síðasti tíminn hjá Enter-krökkunum í sjálfboðamiðstöðinni fyrir jól. Það voru hin svokölluðu “litlu jól” hjá krökkunum og fengu þau jólasmákökur og hlustuðu á jólatónlist í tilefni dagsins. Föndruðu þau líka ýmislegt, klipptu út stjörnur og hjörtu ásamt því að teikna. Þau fengu einnig hundinn Leó í heimsókn en Leó vekur gjarnan mikla lukku hjá krökkunum þegar hann heimsækir þá. Hann mætti með jólatrefil og fengu krakkarnir að klappa honum og knúsa.

Enter er starf með ungum innflytjendum 9-12 ára sem felur í sér málörvun og tómstundastarf fyrir nemendur í móttökudeild fyrir nýbúa í Hjallaskóla. Á miðvikudögum kl. 14.00-15.30 koma nemendurnir í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar þar sem þeir fá málörvun í gegnum fjölbreytta fræðslu og leiki sem og upplýsingar um félagsstarf og menningu á höfuðborgarsvæðinu í gegnum kynningar og vettvangsferðir.

Markmið verkefnisins er að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því.

Enter-starfið hefst aftur 16. janúar 2008.