Þrjár milljónir í hjálparstarf vegna átakanna í Kenýa

8. jan. 2008

Rauði kross Íslands hefur sent 3 milljónir til hjálparstarfs í Keníu vegna átakanna sem brutust út milli þjóðarbrota í landinu í kjölfar forsetakosninganna þar 30. desember. Fjármagnið rennur í neyðarbeiðni Alþjóða Rauði krossins. Einn sendifulltrúi Rauða kross Íslands, Ómar Valdimarsson, er við störf í landinu.

Hundruð  manna eru talin hafa látið lífið eða særst í ofbeldisaðgerðum og tugir þúsunda hafa neyðst til að flýja heimili sín. Alþjóða Rauði krossinn sendi út sérstaka neyðarbeiðni vegna stóraukins stuðnings við Rauða krossinn í Kenýu. Jafnframt hefur verið sendur fjöldi hjálparstarfsmanna til að aðstoða fórnarlömb átakanna og vinna að dreifingu matvæla og annarra hjálpargagna ásamt sjálfboðaliðum Rauða krossins.

„Alþjóða Rauða krossinn leggur höfuðáherslu á að aðstoða fjölskyldur sem hafa orðið að flýja vegna atburðanna eða þora ekki að yfirgefa þorp sín. Við munum eiga náið samstarf við Rauða krossinn í Kenýu um öll verkefni,” sagði Pierre Krähenbühl sem hefur yfirumsjón með neyðaraðgerðum Alþjóða Rauða krossins.

Rauði krossinn í Kenýu brást við þörfum fórnarlamba um leið og átökin brutust út. Særðir fá skyndihjálp og þeir sem þarfnast frekari aðhlynningar hafa verið fluttir á heilsugæslustöðvar og sjúkrahús í nágrenninu. Rauði krossinn hefur einnig sótt lík þeirra sem fallið hafa í þeirri ofbeldisöldu sem riðið hefur yfir landið. Alþjóða Rauði krossinn hefur séð landsfélaginu fyrir ýmsum hjálpargögnum og aðstoðar við flutninga.

Fyrstu aðgerðir Alþjóða Rauða krossins felast í því að útvega fórnarlömbum átakanna matvæli, búsáhöld, vatn og hreinlætisaðstöðu. Alls er stefnt að því að sjá um 100.000 manns fyrir aðstoð um nokkurra vikna skeið. Rauði krossinn í Kenýu mun dreifa hjálpargögnunum á næstu dögum og fær aðstoð við að sameina fjölskyldur sem hafa sundrast og leita að týndu fólki. Alþjóða Rauði krossinn dreifir einnig sjúkragögnum og lyfjum til sjúkrastofnana til að gera þeim kleift að hlúa að þeim sem særst hafa í átökunum. Aukið magn sjúkragagna hefur þegar verið sent til Kenýu.

Alþjóða Rauði krossinn hefur óskað eftir framlögum frá styrktaraðilum að jafnvirði um það bil 840 milljóna króna (15 milljónir svissneskra franka) til að fjármagna aðgerðir samtakanna í Kenýu. Enn er ekki vitað hve mikil átökin verða í landinu né hve lengi íbúarnir þurfa að óttast afleiðingar ofbeldisöldunnar. Rauða kross hreyfingin er viðbragðsstöðu ef mannúðarástand versnar enn.

Rauði krossinn bendir á söfnunarsímann 907 2020 fyrir þá sem vilja leggja fram framlög vegna átakanna í Kenýa. Við hvert símtal dragast frá 1.200 kr. sem greiðast með næsta símreikningi.