Sex vinkonur safna flöskum til styrktar Rauða krossinum

10. jan. 2008

Sex vinkonur úr Lindaskóla, þær Birta Líf, Guðrún, Katrín Linh, Ólafía Ósk, Diljá Rún og Helga Margrét, komu færandi hendi í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar í gær. Þær gengu í hús á dögunum í hverfinu sínu og söfnuðu flöskum til styrktar Rauða krossins. Þessar níu ára skemmtilegu stelpur voru aldeilis duglegar og söfnuðu alls 14.983 krónum. Það var tekið vel á móti þeim í sjálfboðamiðstöðinni og fengu þær fræðslu um upphaf, sögu og störf Rauða krossins. Þökkum við þeim kærlega fyrir þetta framtak. 
 
Rauði krossinn metur mikils framtak sem þetta af hálfu yngstu sjálfboðaliða hreyfingarinnar. Fjársöfnun ungmenna rennur í sameiginlegan sjóð á landsvísu sem ráðstafað er einu sinni á ári í verkefni í þágu barna í neyð erlendis. Tilkynnt er hvaða verkefni verður fyrir valinu í desember ár hvert.
 
Þeir sem vilja afhenda Rauða krossinum afrakstur af fjársöfnun sinni geta komið í sjálfboðamiðstöðina alla virka daga á milli kl. 10-16.