Fjör hjá Enter-krökkunum

24. jan. 2008

Krakkarnir í Enter komu í sjálfboðamiðstöðina í gær. Það var mikið fjör hjá þeim en þau fóru í leiki og spiluðu á spil. Fannst þeim sérstaklega gaman í stoppdansleiknum þar sem þau gátu hoppað og dansað að hjartans list. Þau fengu einnig hund í heimsókn, tíkina Karó, og vakti hún mikla lukku. Krakkarnir fengu hana til að setjast og heilsa og launuðu henni það með sérstöku hundagóðgæti, knúsum og klappi.

Enter er starf með ungum innflytjendum 9-12 ára sem felur í sér málörvun og tómstundastarf fyrir nemendur í móttökudeild fyrir nýbúa í Hjallaskóla. Á miðvikudögum kl. 14.30-16.00 koma nemendurnir í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar þar sem þeir fá málörvun í gegnum fjölbreytta fræðslu og leiki sem og upplýsingar um félagsstarf og menningu á höfuðborgarsvæðinu í gegnum kynningar og vettvangsferðir.

Markmið verkefnisins er að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því.