Sífellt bætist í hóp alþjóðlegra foreldra

24. jan. 2008

Mikið líf og fjör var í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar í morgun þegar foreldrar mættu með börnin sín til að taka þátt í verkefninu Alþjóðlegir foreldrar. Alls mættu tíu foreldrar og þar af fimm nýjir. Koma foreldrarnir frá hinum ýmsu löndum eða Þýskalandi, Póllandi, Bandaríkjunum, Kanada, Guyana, Spáni og Svíþjóð auk íslensku þátttakendanna. Sáu þeir íslensku um dagskrána sem að þessu sinni snerist um líkamann og var því íslenskukennsla tengd honum. 

Markmið deildarinnar með verkefninu er að rjúfa félagslega einangrun innflytjenda sem eru heima með börn á aldrinum 0-6 ára. Allir foreldar, innflytjendur og innfæddir eru innilega velkomnir, hvort sem þeir tala enga íslensku eða litla.

Alþjóðlegir foreldrar hittast í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar í Hamraborg 11, 2. hæð, alla fimmtudaga frá kl. 10.00-11.30. Í hvert sinn verður boðið upp á stutta íslenskukennslu og fjölbreyttar kynningar. Foreldrar eru hvattir til að mæta og kynnast skemmtilegum foreldrum af hinu ýmsu þjóðarbrotum. Þátttaka er ókeypis.