Hagkaup styrkja Föt sem framlag í þrjú ár

29. jan. 2008

Hagkaup og Kópavogsdeild Rauða krossins hafa gert með sér samning um að Hagkaup styrki verkefnið Föt sem framlag árlega í þrjú ár. Styrkur Hagkaupa nemur um helmingi af kostnaði Kópavogsdeildar við verkefnið og gerir deildinni kleift að standa að verkefninu af þeim krafti og metnaði sem hugur stendur til.

Sjálfboðaliðar á öllum aldri sauma og prjóna fatnað fyrir verkefnið og útbúa ungbarnapakka sem sendir eru til neyðaraðstoðar víðs vegar um heim, mest til Malaví og Gambíu. Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar hafa frá árinu 2002 útbúið tæplega 3.000 ungbarnapakka en um 50 sjálfboðaliðar starfa við verkefnið. Síðasta miðvikudag hvers mánaðar kl. 16-18 mæta að jafnaði um 35 konur í sjálfboðamiðstöð deildarinnar til að vinna að verkefninu.

Pökkunum hefur verið dreift til barnaheimila fyrir HIV-smituð börn, til barnafjölskyldna sem heimsóknavinir malavíska Rauða krossins heimsækja í tengslum við alnæmisverkefni, til þurfandi mæðra, til fórnarlamba bruna og náttúruhamfara og til flóttamannafjölskyldna.

Linda Ósk Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Kópavogsdeildar, Gunnar Ingi Sigurðsson framkvæmdastjóri Hagkaupa og Garðar H. Guðjónsson formaður Kópavogsdeildar undirrituðu samninginn í dag. Þau eru hér í hópi sjálfboðaliða sem starfa að verkefninu Föt sem framlag.