Enter-krakkarnir heimsækja Latabæ

31. jan. 2008

Enter-hópurinn fór í heimsókn í myndver Latabæjar í gær og fékk mjög svo góðar móttökur. Hópurinn fékk fræðslu um starfsemi Latabæjar og kynningu á hinum ýmsu deildum fyrirtækisins. Krakkarnir skoðuðu meðal annars teiknideildina og sáu hvernig persónur í Latabæjarþáttunum eru búnar til á teikniborðinu. Þau sáu brúðurnar eins og Sigga sæta og Höllu hrekkjusvín og var sýnt hvernig þeim er stjórnað.

Þau fóru einnig í upptökusalinn og hittu sjálfan skapara Latabæjar, Magnús Scheving, sem dró fram íþróttaálfinn í sér og tók nokkrar leikfimiæfingar með krökkkunum. Hoppuðu þau og sprikluðu og reyndu að herma eftir alls konar hundakúnstum íþróttaálfsins. Krakkarnir voru svo leystir út með gjöfum, alsælir, eftir vel heppnaða heimsókn. Þökkum við Magnúsi og starfsfólki Latabæjar kærlega fyrir þessar góðu móttökur.

Enter er starf með ungum innflytjendum 9-12 ára sem felur í sér málörvun og tómstundastarf fyrir nemendur í móttökudeild fyrir nýbúa í Hjallaskóla. Á miðvikudögum kl. 14.30-16.00 koma nemendurnir í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar þar sem þeir fá málörvun í gegnum fjölbreytta fræðslu og leiki sem og upplýsingar um félagsstarf og menningu á höfuðborgarsvæðinu í gegnum kynningar og vettvangsferðir.

Markmið verkefnisins er að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því.