Fatapökkun og prjónakaffi

4. feb. 2008

Í síðustu viku komu sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag í sjálfboðamiðstöðina til að pakka ungbarnafötum í þar til gerða pakka sem sendir verða til barna í neyð í Malaví. Alls var pakkað 198 pökkum. Fötin í pökkunum eru afrakstur prjónavinnu sjálfboðaliðanna síðustu mánaða en síðasta miðvikudag hvers mánaðar hittast sjálfboðaliðarnir í prjónakaffi í sjálfboðamiðstöðinni og fá þá garn með sér heim til að prjóna ungbarnaföt í pakkana eins og peysur, teppi, húfur og sokka. Einnig fara samfellur, treyjur, handklæði og taubleyjur í pakkana.

Fyrsta prjónakaffið á nýju ári var einnig haldið í síðustu viku í sjálfboðamiðstöðinni þar sem sjálfboðaliðarnir hittust og áttu skemmtilega stund saman yfir prjónunum, kaffi og með því.

Tilgangurinn með þessu verkefni er að mæta skorti á barnafötum á svæðum þar sem neyð ríkir en í almennum fatasöfnunum berst minnst af barnafötum. Handavinnan miðar að því að draga úr þessum skorti.

Þörfin fyrir Föt sem framlag er því sannarlega fyrir hendi og er kærkomið fyrir Kópavogsdeild Rauða krossins að fá fleiri sjálfboðaliða í hópinn sem hafa gaman af hannyrðum. Áhugasamir eru því eindregið hvattir til að hafa samband við deildina í síma 554 6626 eða á kopavogur@redcross.is.