Enter-krakkar útbúa jólaföndur fyrir jólabasar Kópavogsdeildar

16. nóv. 2011

Enter-hópur Kópavogsdeildar vinnur nú að gerð jólaföndurs sem selt verður á jólabasar deildarinnar laugardaginn 26. nóvember næstkomandi. Börnin eru að útbúa hitaplatta með jólaívafi sem þau perla samviskusamlega. Vinnan gengur vel hjá börnunum og meðfram föndurgerðinni hafa þau einnig verið í markvissri málörvun sem sjálfboðaliðar hafa tekið þátt í með krökkunum.

Jólabasarinn, sem afraksturinn verður seldur á, verður haldinn í Rauðakrosshúsinu Hamraborg 11, 2. hæð, og stendur frá kl. 14-18. Þar verður einnig selt fleira handverk sem unnið er af sjálfboðaliðum deildarinnar, jólaskraut, sauma– og prjónavörur og fleira föndur.

Börnin í Enter eru ungir innflytjendur úr Álfhólsskóla í Kópavogi en þau hittast einu sinni í viku í Rauðakrosshúsinu í Kópavogi og fá meðal annars málörvun og samfélagsfræðslu, auk þess sem þau taka þátt í ýmsum tómstundum í gegnum fjölbreytta fræðslu og leiki.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í starfi deildarinnar með ungum innflytjendum sem sjálfboðaliðar geta haft samband í síma 554 6626 eða með því að senda tölvupóst á kopavogur@redcross.is.