Eldhugar heimsækja Hafnarfjörðinn

25. feb. 2008

Ungmennadeild Rauða krossins í Hafnarfirði bauð Eldhugunum í heimsókn í síðustu viku til fræðslu- og tónleikaveislu. Fyrst sögðu tveir sjálfboðaliðar Rauða krossins í Gambíu frá störfum sínum þar í landi en þeir eru á Íslandi í boði Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands. Kynntu þeir gambíska Rauða krossinn og hvernig sjálfboðnum störfum er háttað þar. Síðan tóku við tónleikar hjá hljómsveitinni Ljótu hálfvitarnir og hélt hún uppi miklu fjöri í rúma klukkustund fyrir Eldhugana og gestgjafa þeirra í Hafnarfjarðardeildinni.

Eldhugar eru ungmenni á aldrinum 13-16 ára af íslenskum og erlendum uppruna sem hittast í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins á fimmtudögum kl. 17.30-19.00. Eldhugar vinna skemmtileg og skapandi verkefni sem miða að því að byggja betra samfélag án mismununar og fordóma. Unnið er með hugtök eins og vinátta, virðing og umburðarlyndi í gegnum ljósmyndun, leiklist, kynningar á erlendum menningarheimum og margt fleira. Sjálfboðaliðar Rauða krossins taka þátt í og stýra starfinu í samstarfi við fagfólk á ýmsum sviðum sem einnig gefur vinnu sína.

Áhugasamir sem vilja taka þátt í Eldhugum eru eindregið hvattir til að hafa samband við Kópavogsdeild Rauða krossins í síma 554 6626 eða á kopavogur@redcross.is.