Fjöldi nýrra sjálfboðaliða og nýtt verkefni á síðasta ári

28. feb. 2008

Sjálfboðaliðum Kópavogsdeildar fjölgaði um nær þriðjung á síðasta ári, úr 182 í 240, og varð fjölgunin einkum í þremur verkefnum. Heimsóknavinum fjölgaði úr 71 í 87, fjöldi sjálfboðaliða í verkefninu Föt sem framlag margfaldaðist og sex sjálfboðaliðar voru skráðir í nýtt verkefni, Alþjóðlega foreldra, sem hófst haustið 2007. Þetta kom fram í máli Garðars H. Guðjónssonar formanns á fjölmennum aðalfundi sem haldinn var í gærkvöldi. Garðar var endurkjörinn formaður til tveggja ára á fundinum. Hann vakti athygli á því í setningarávarpi sínu að deildin fagnar tveimur merkum áföngum á árinu. Deildin verður fimmtíu ára í maí og athvarfið Dvöl fagnar tíu ára afmæli í haust.

Auk Garðars voru Hjördís Einarsdóttir og Hildur Tryggvadóttir Flovenz kjörnar í stjórn til tveggja ára og Hjörtur Þór Hauksson til eins árs. Hildur hefur átt sæti í varastjórn undanfarin ár en hefur ekki setið í stjórn áður. Guðmundur Freyr Sveinsson gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Þá varð talsverð endurnýjun í varastjórn. Hildur, Sigríður María Tómasdóttir og Þórhallur Matthíasson gáfu ekki kost á sér til endurkjörs en í þeirra stað voru kjörin Sigrún Eðvaldsdóttir, Guðbjörg Sveinsdóttir og Gunnar Hansson.

Fyrir fundinum lá nýútgefin ársskýrsla fyrir starfsárið 2007 og má skoða hana hér. Ársreikningur deildarinnar var afgreiddur á fundinum. Þar kemur meðal annars fram að Kópavogsdeild nýtur nú umtalsverðs stuðnings fyrirtækja og opinberra aðila en reglulegar tekjur af söfnunarkössum nema ríflega helmingi heildartekna.

Meðal gesta fundarins voru núverandi og fyrrverandi formenn Rauða kross Íslands, Ómar Kristmundsson og Anna Þrúður Þorkelsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins, formaður stjórnar Sunnuhlíðar og fulltrúi heilsugæslu Kópavogs.

Þess má geta að mikill fjöldi fólks sækir sjálfboðamiðstöðina heim af ýmsu tilefni og er óhætt að fullyrða að hún hafi aldrei verið eins mikið notuð og um þessar mundir. Til marks um það má nefna að í þessari viku einni koma um eitt hundrað manns á námskeið fyrir heimsóknavini, í starf Enter, í prjónakaffi, á aðalfund, Alþjóðlega foreldra og samverustund Eldhuga. Reglulegir viðburðir eru að jafnaði þrír til fimm í viku hverri.