Kópavogsbörn hjálpa jafnöldrum sínum í Malaví

29. feb. 2008

Framlag ungra Kópavogsbúa til Rauða kross deildarinnar nam nær 40 þúsund krónum á síðasta ári og verður fénu varið til þess að hjálpa börnum í Malaví í suðurhluta Afríku. Börnin öfluðu fjárins meðal annars með tombólum og flöskusöfnun. Kópavogsdeild veitti alls 434.465 krónur til neyðaraðstoðar erlendis á síðasta ári en auk þess söfnuðust átta milljónir króna til neyðaraðstoðar í sameiginlegri fatasöfnun deildanna á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í nýútgefinni ársskýrslu sem skoða má hér.

Kópavogsdeild veitti 50 þúsund krónur til stuðnings HIV-smituðum sjálfboðaliðum og starfsmönnum landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans og lagði fram 250 þúsund krónur vegna neyðaraðstoðar í Mósambík. Nemendur í MK-söfnuðu tæplega 100 þúsund krónum með sölu fatnaðar og rennur féð til þess að efla menntun fátækra ungmenna í Mósambík.

Fram kemur í ársskýrslu deildarinnar að hún var ekki aðili að vinadeildasamstarfi á síðasta ári. Samstarfinu við vinadeild í Albaníu lauk árið 2006 en á síðasta ári var unnið að því að koma á samstarfi við deild í Mósambík.