Mikil þátttaka í ungmennastarfi Kópavogsdeildar

29. feb. 2008

Talsvert á annað hundrað manns tóku þátt í blómlegu ungmennastarfi hjá Kópavogsdeild á síðasta ári. Alls tóku 40 börn af ýmsum þjóðernum þátt í Enter og með þeim störfuðu 15 sjálfboðaliðar. Þátttakendur í Eldhugum voru 38 og þeim til aðstoðar voru 25 sjálfboðaliðar. Sjálfboðaliðarnir eru flestir á þrítugsaldri. Þá tóku 19 nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi þátt í starfi deildarinnar í áfanga um sjálfboðið starf.

Ítarlega er fjallað um ungmennastarf deildarinnar í ársskýrslu sem kynnt var á aðalfundi í vikunni. Enter er verkefni fyrir unga innflytjendur á aldrinum 9-12 ára. Eldhugar eru fyrir ungmenni af íslenskum og erlendum uppruna á aldrinum 13-16 ára. Bæði verkefnin miða að því að auðvelda ungum innflytjendum að aðlagast nýju samfélagi og taka virkan þátt í því en Eldhugar vinna auk þess sérstaklega með hugtökin vináttu og virðingu.

BYKO styrkir bæði verkefnin með veglegu fjárframlagi í vetur eins og veturinn 2006-2007.

Þeim sem vilja taka þátt í ungmennastarfi Kópavogsdeildar er bent á að hafa samband við sjálfboðamiðstöðina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is.