Nemendur í Snælandsskóla gáfu Rauða krossinum þrettán hjól

22. mar. 2008

Á dögunum afhentu nokkrir nemendur úr unglingadeild Snælandsskóla fulltrúum Rauða krossins þrettán hjól sem þau höfðu gert upp. Nokkur hjól eru nú þegar á leið til Gambíu en þau sem eftir eru fara síðar til Malaví. Landsfélög Rauða krossins í þessum löndum koma hjólunum áleiðis til þeirra sem þurfa. Þetta er í annað sinn sem krakkarnir í Snælandsskóla afhenda Rauða krossinum hjól að gjöf og munu þau áreiðanlega koma sér vel hjá nýjum eigendum.

Nemendur í Snælandsskóla geta valið starf á hjólaverkstæði sem hluta af námi sínu og fer það fram í húsi nálægt skólanum. Á hverjum miðvikudegi endurnýta nemendurnir hjól og varahluti úr hjólum sem hafa safnast í gáma Sorpu. Á verkstæðinu fer einnig fram ýmis konar hönnun úr gömlum hjólum, til dæmis er búið til gluggaskraut og ljósaseríustandar. Krakkarnir vinna saman undir handleiðslu Unnar Sólrúnar Bragadóttur og fleira góðs fólks en hugmyndin að verkstæðinu er upprunnin frá Hvammshúsi í Kópavogi.

Rauði kross Íslands færir nemendunum bestu þakkir fyrir hjólin og óskar þeim alls hins besta í verkstæðisvinnunni í framtíðinni.