Vinsælt prjónakaffi

27. mar. 2008

Þrjátíu konur mættu í prjónakaffi sem var haldið í sjálfboðmiðstöð Kópavogsdeildar í gær. Komu þær með ungbarnaföt sem þær höfðu prjónað og saumað síðasta mánuðinn og nýttu síðan samveruna til þess að prjóna, fá sér kaffi og ræða saman um hin ýmsu mál. Nokkrir nýir sjálfboðaliðar bættust í hópinn eftir að hafa séð auglýsingu um prjónakaffið í blöðunum og bjóðum við þá sérstaklega velkomna í þennan góða hóp.

Markmiðið með prjónakaffinu er að sjálfboðaliðar komi saman til að njóta félagsskapar við að prjóna eða sauma ungbarnafatnað fyrir neyðaraðstoð. Verkefnið heitir Föt sem framlag og er mikil þörf fyrir framlag af þessu tagi til hjálparstarfs innan lands sem utan. Garn, prjónar, prjóna- og saumauppskriftir og upplýsingar um verkefnið eru á boðstólum og allir geta fundið verkefni við sitt hæfi.
 
Þar sem þörfin er mikil er kærkomið fyrir Kópavogsdeild að fá fleiri sjálfboðaliða sem hafa gaman af hannyrðum og leggja um leið sitt af mörkum til hjálparstarfs. Hver og einn getur sniðið sitt framlag að eigin þörfum, sinnt því í hópi eða heima.

Prjónakaffi er alltaf haldið síðasta miðvikudag í hverjum mánuði. Áhugasamir sem vilja bætast í hópinn eru eindregið hvattir til að hafa samband við starfsfólk Kópavogsdeildar í síma 554 6626 eða á [email protected]

Næsta prjónakaffi Kópavogsdeildar verður miðvikudaginn 30. apríl kl.16-18.