Sjálfboðaliðar fataflokkunar funda

11. apr. 2008

Sjálfboðaliðar Rauða krossins sem vinna í fataflokkun funduðu á dögunum í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar. Slíkir fundir eru haldnir reglulega svo að sjálfboðaliðarnir geti kynnst hver öðrum og borið saman bækur sínar enda er vettvangur starfsins á þremur stöðum, þ.e. í Fataflokkunarstöð Rauða krossins í Gjótuhrauni 7 í Hafnarfirði, Rauða kross búðinni Strandgötu 24 í Hafnarfirði og Rauða kross búðinni Laugavegi 12 í Reykjavík. Á fundinum kynnti Linda Ósk Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Kópavogsdeildar, starf deildarinnar og að því loknu voru málefni dagsins rædd ásamt árangri starfsins. Að því búnu var spilað bingó.

Starf fataflokkunar gengur afar vel, tekjur aukast jafnt og þétt og sífellt fleirum er veitt úrlausn varðandi notaðan fatnað. Velgengi starfsins er ekki síst að þakka ötulu framtaki og dugnaði sjálfboðaliðanna sem vinna í fataflokkun og búðunum. Starf þeirra er ómetanlegt í þessu mikilvæga verkefni.

Deildir Rauða krossins um allt land safna notuðum fatnaði sem allur nýtist til hjálparstarfs. Á höfuðborgarsvæðinu er Rauði krossinn í samstarfi við Sorpu um söfnun á fatnaði. Á öllum gámastöðum Sorpu er að finna söfnunargám Fataflokkunar. Þeir eru hvítir og vandlega merktir Rauða krossinum. Fatnaður sem Rauði krossinn fær nýtist þannig:

hann er seldur beint til útlanda og ágóðinn rennur í Hjálparsjóð Rauða krossins
• hann er flokkaður og gefinn þurfandi hér á landi
• hann er flokkaður og gefinn þurfandi erlendis  
• Hann er flokkaður og seldur í Rauða kross búðunum L12 að Laugavegi 12 Reykjavík og Strandgötu 24 Hafnarfirði
• Fötum er úthlutað til þeirra sem á þurfa að halda alla miðvikudaga klukkan 9-14 í Fataflokkunarstöð Rauða krossins að Gjótuhrauni 7, Hafnarfirði, sími: 587 0900, netfang: fataflokkun@redcross.is.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í fataflokkunarverkefninu geta skráð sig hér á vefnum og fulltrúi Rauða krossins mun hafa samband.