Undirbúningur í fullum gangi fyrir jólabasar Kópavogsdeildar á morgun, laugardag

25. nóv. 2011

Undirbúningur fyrir jólabasar deildarinnar á morgun er í fullum gangi í Rauðakrosshúsinu í Hamraborg. Í síðustu viku föndruðu Enter-krakkarnir hitaplatta og jólaskraut úr perlum og skemmtu sér vel við það. Í gær útbjuggu Eldhugarnir svo brjóstsykur líkt og þeir hafa gert undanfarin ár fyrir basar deildarinnar. Öllum söluvörunum verður svo raðað upp í salnum í dag og allt gert tilbúið fyrir morgundaginn.

Að þessu sinni munu sjálfboðaliðar úr basarhópnum standa vaktina ásamt ungmennum úr Plúsnum. Basarhópurinn hefur hist alla þriðjudaga í haust til að útbúa handverk á basarinn en ungmennin í handverkshóp Plússins eiga einnig vörur á basarnum. Þá hafa sjálfboðaliðar í Föt sem framlag einnig lagt til vörur á basarinn.  

Basarinn verður opinn kl. 14-18 og hægt verður að kaupa alls kyns prjóna- og saumavörur, jólaskraut, brjóstsykur og annað föndur. Allur ágóði rennur til verkefna deildarinnar innanlands.