Mikið líf og fjör á fatamarkaði MK-nema í dag, markaðurinn einnig á morgun

18. apr. 2008

Nemendur í MK í áfanganum SJÁ 102 um sjálfboðið starf hjá Kópavogsdeild stóðu fyrir fatamarkaði í sjálfboðamiðstöð deildarinnar í dag og var rífandi sala. Margir gerðu sér ferð í miðstöðina til að gera góð kaup á alls kyns fötum og varningi.

Markaðurinn heldur áfram á morgun, laugardag, frá kl. 11-17. Mikið úrval er enn í boði af fatnaði fyrir konur, karla, unglinga og börn. Verð á bilinu 300-1500 kr. Sérstakt tilboð er í gangi, “bland í poka”-horn þar sem hægt er að fylla einn poka af fötum fyrir 1.000 kr.

Markmið áfangans er að nemendur kynnist sjálfboðnu starfi hjá Rauða krossi Íslands. Nemendur vinna sjálfboðið starf yfir önnina í samráði við kennara og Kópavogsdeild Rauða krossins. Meðal verkefna í boði eru aðstoð við aldraða og einmana, störf í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða, og félagsstarf með ungum innflytjendum. Nemendur fá fræðslu um hugsjónir og störf Rauða kross hreyfingarinnar og sækja námskeið fyrir sjálfboðaliða.