145 þúsund krónur söfnuðust á fatamarkaði MK-nema um helgina

21. apr. 2008

Á fatamarkaði sem nemendur í áfanga um sjálfboðið starf í Menntaskólanum í Kópavogi héldu um helgina söfnuðust 145 þúsund krónur. Fjöldi manns kom á markaðinn og gerði góð kaup á notuðum dömu-, herra- og barnafatnaði ásamt dóti. Allur ágóðinn rennur til að styrkja ungmenni í Mósambík til mennta. MK-nemarnir höfðu farið í fataflokkunarstöð Rauða krossins og valið föt á markaðinn. Síðan settu þeir hann upp í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og afgreiddu á markaðinum sjálfum.

Fatamarkaðurinn var lokaverkefni nemendanna í áfanganum um sjálfboðið Rauða kross starf. Markmið áfangans er að nemendur kynnist sjálfboðnu starfi hjá Rauða krossi Íslands. Nemendur vinna sem sjálfboðaliðar yfir önnina í samráði við kennara og Kópavogsdeild Rauða krossins. Meðal verkefna í boði eru aðstoð við aldraða og einmana, störf í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatlaða, og félagsstarf með ungum innflytjendum. Nemendur fá fræðslu um hugsjónir og störf Rauða kross hreyfingarinnar og sækja námskeið fyrir sjálfboðaliða.