SJÁ 102 í Menntaskólanum í Kópavogi er vinsæll áfangi

30. nóv. 2011

Nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi hafa nú lokið áfanganum SJÁ 102 en alls voru 24 nemendur skráðir í áfangann á þessari önn. Markmið áfangans er að nemendur kynnist sjálfboðnu starfi hjá Rauða krossinum.

Nemendurnir unnu sjálfboðin störf í Rjóðrinu, hvíldarheimili fyrir langveik börn, með Eldhugum sem er félagsstarf með 13-16 ára ungmennum af íslenskum og erlendum uppruna, í athvarfinu Dvöl sem er athvarf fyrir fólk með geðraskanir og í Sunnuhlíð, dvalarheimili aldraðra í Kópavogi. Í Sunnuhlíð tóku nemendur þátt í samverum vistmanna, bæði söngstundum og messuhaldi, auk þess sem þeir aðstoðuðu í virknisetri þeirra. Þar að auki sátu nemendurnir grunnnámskeið Rauða krossins þar sem þeir lærðu um upphaf, sögu, hugsjónir og verkefni hreyfingarinnar. Þeir héldu einnig dagbók um störf sín og tóku þátt í Rauðakrossvikunni þar sem söfnuðust ríflega 500 þúsund krónur. Afrakstur þeirrar söfnunar mun nýtast vel í starfi deildarinnar og styrkja þau fjölmörgu verkefni sem hún sinnir.