Fjölmenni í afmælis- og útgáfufagnaði Kópavogsdeildar

16. maí 2008

Mikill fjöldi samstarfsaðila og velunnara Kópavogsdeildar tók þátt í afmælis- og útgáfufagnaði deildarinnar sem haldinn var í sjálfboðamiðstöðinni í Hamraborg í gær. Kópavogsdeild var stofnuð 12. maí 1958 og fagnar því 50 ára afmæli um þessar mundir. Af því tilefni hefur saga deildarinnar verið gefin út í veglegu afmælisriti. Garðar H. Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar og höfundur sögunnar, fylgdi henni úr hlaði með þeim orðum að ritið væri gefið út í þakklætisskyni við alla sem lagt hafa starfi deildarinnar lið í áranna rás.

Hann afhenti síðan fyrrverandi formönnum deildarinnar, Ásgeiri Jóhannessyni og Garðari Briem, fyrstu eintökin, árituð með kveðju frá deildinni og þökkum fyrir framlag þeirra sem forystumanna. Ásgeir var formaður 1977-1988 og Garðar á árunum 1994-2002.

Fjöldi fólks tók þátt í fagnaðinum og naut góðra veitinga, fulltrúar ýmissa stofnana sem deildin á góð samskipti við, sjálfboðaliðar og starfsfólk annarra Rauða kross deilda, starfsfólk landsskrifstofu og formaður félagsins. Deildinni voru færðar árnaðaróskir og barst fjöldi gjafa frá samstarfsaðilum í tilefni dagsins og kann þeim bestu þakkir fyrir.

Sögu Kópavogsdeildar verður dreift án endurgjalds meðal samningsbundinna sjálfboðaliða og ýmissa samstarfsaðila innan hreyfingarinnar og utan. Samningsbundnir sjálfboðaliðar eru hvattir til að nálgast gjafaeintak sem bíður þeirra í sjálfboðamiðstöðinni. Ritið verður einnig til sölu í sjálfboðamiðstöðinni og er verð þess 2.000 krónur.