Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar fengu viðurkenningu

21. maí 2008

Á aðalfundi Rauða krossins 17. maí síðastliðinn voru tveir sjálfboðaliðar í Kópavogsdeild heiðraðir og veitt viðurkenning fyrir framúrskarandi störf í þágu félagsins. Þetta eru Pálína Jónsdóttir sem hefur unnið sem sjálfboðaliði í yfir 20 og Rúna H. Hilmarsdóttir sem hefur unnið sem sjálfboðaliði frá árinu 1994.

Rauða kross deildir á höfuðborgarsvæðinu fengu einnig viðurkenningu vegna viðbragðshóps um neyðarvarnir en starf hópsins hefur vakið verðskuldaða athygli. Á síðustu 12 mánuðum hefur verið farið í tíu útköll. Viðbragðshópurinn samanstendur af 17 sjálfboðaliðum frá öllum deildum höfuðborgarsvæðisins og á hverjum tíma eru þrír á bakvakt tilbúnir að bregðast við. Inga Lilja Diðriksdóttir, stjórnarmaður, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Kópavogsdeildar.

Pálína byrjaði að lesa fyrir heimilisfólkið í Sunnuhlíð og fljótlega eftir það gekk hún til liðs við sjúkravini sem lögu sitt af mörkum við að skemmta heimilisfólki Sunnuhlíðar með lestri og söng ásamt ýmsum viðburðum eins og kirkjuferðum og aðventuhátíðum. Pálína átti síðan stóran þátt í því að sjúkravinum, sem nú heita heimsóknavinir, fjölgaði og ný verkefni innan þeirra raða urðu að veruleika, s.s. heimsóknir á sambýli, einkaheimili og fangelsi. Pálína hefur einnig aðstoðað mæður við að sækja börn þeirra á leiksóla svo þær gætu sinnt öðrum erindum.

Í dag heimsækir Pálína tvo gestgjafa sem hún fer með út að keyra, er ökuvinur eins og það er kallað innan Rauða krossins. Pálína hefur tekið þátt í stefnumótun og undirbúningi hinna ýmsu verkefna Kópavogsdeildar og verið fulltrúi hennar á fundum og samverum, verið nokkurs konar andlit heimsóknavina Kópavogsdeildar ef svo má segja. Hún hefur ötul kynnt störf heimsóknavina og deildarinnar við hin ýmsu tækifæri og átti sæti í ritnefnd vegna ritunar 50 ára sögu Kópavogsdeildar.

Rúna byrjaði í ungmennahreyfingu Rauða krossins og fór að starfa hjá Vinalínunni tvisvar í mánuði. Rúna kom inn í stjórn Kópavogsdeildar árið 1998, hefur setið þar með hléum síðan og tekið þátt í ýmsum verkefnum deildarinnar. Rúna kom af stað og sá um að skipuleggja vaktir sjálfboðaliða í Dvöl, athvarfi Kópavogsdeildar fyrir fólk með geðraskanir, og stóð sjálf vaktir í athvarfinu. Hún er fjöldahjálparstjóri og fulltrúi Kópavogsdeildar í neyðarnefnd höfuðborgarsvæðisins og situr í verkefnastjórn Hjálparsímans. Nýjasta verkefni Rúnu er stuðningur við flóttamannafjölskyldu sem nýlega eignaðist lögheimili í Kópavogi.