Gunnar Birgisson bæjarstjóri fékk sögu deildarinnar að gjöf

23. maí 2008

Garðar H. Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar, færði Gunnari Birgissyni, bæjarstjóra Kópavogs, afmælisrit deildarinnar að gjöf á aðalfundi Rauða kross Íslands sem haldinn var í Kópavogi 17. maí síðastliðinn með þökkum fyrir gott samstarf á liðnum árum. Kópavogsdeild og Kópavogsbær eiga samstarf um ýmis verkefni, svo sem rekstur Dvalar, heimsóknaþjónustu, fræðslu í skyndihjálp og fleira. Gunnar árnaði deildinni allra heilla í tilefni af 50 ára afmæli deildarinnar í ávarpi sem hann flutti við setningu fundarins.

Í tilefni af afmælinu hefur Kópavogsdeild gefið út afmælisritið Verkin tala - Kópavogsdeild Rauða krossins 1958-2008. Í ritinu eru verk deildarinnar og sjálfboðaliða hennar rakin í máli og myndum. Garðar H. Guðjónsson tók verkið saman en Kópavogsdeild er útgefandi.

Ritið er gefið út í þakklætisskyni við alla sem lagt hafa starfinu lið í þau 50 ár sem liðin eru frá stofnun deildarinnar. Því verður dreift án endurgjalds meðal sjálfboðaliða og samstarfsaðila en það er einnig til sölu hjá útgefanda. Samningsbundnir sjálfboðaliðar í Kópavogsdeild eru hvattir til að sækja eintakið sitt hvenær sem er á opnunartíma sjálfboðamiðstöðvarinnar.