Sjálfboðaliðar kynna Alþjóðlega foreldra á aðalfundi Rauða kross Íslands

27. maí 2008

Fulltrúar frá Kópavogsdeild kynntu verkefnið Alþjóðlegir foreldrar á aðalfundi Rauða krossins á dögunum. Á fundinum voru haldnar málstofur um innflytjendamál þar sem verkefni tengd innflytjendum voru kynnt. Sigrún Eðvaldsdóttir sjálfboðaliði og Diana Wilson þátttakandi greindu frá tilkomu Alþjóðlegra foreldra sem er nýjasta verkefni Kópavogsdeildar og hófst haustið 2007. Ennfremur sögðu þær frá fyrirkomulagi verkefnisins, vikulegum samverum, íslenskukennslu og fræðslu á samverunum og eigin reynslu af þátttöku í verkefninu.

Markmið Kópavogsdeildar með Alþjóðlegum foreldrum er að rjúfa félagslega einangrun innflytjenda sem eru heima með börn á aldrinum 0-6 ára. Allir foreldar, innflytjendur og innfæddir eru velkomnir, hvort sem þeir tala enga íslensku eða litla. Foreldrarnir hittast vikulega yfir veturinn í sjálfboðamiðstöð deildarinnar og er þátttaka ókeypis. Alþjóðlegir foreldrar eru komnir í sumarfrí en skipulögð dagskrá hefst aftur í haust.

Þeir sem hafa áhuga að gerast sjálfboðaliðar í verkefninu eru hvattir til að hafa samband við deildina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is.