Kópavogsdeild styrkir hjálparstarf í Mjanmar

29. maí 2008

Kópavogsdeild hefur ákveðið að veita 300.000 kr. til hjálparstarfsins í Mjanmar vegna fellibylsins sem reið þar yfir í byrjun maí. Talið er að fellibylurinn hafi orðið um 60 þúsundum manna að aldurtila og um ein milljón manna séu heimilislaus. Sjálfboðaliðar og starfsfólk Rauða krossins hafa aðstoðað fólk frá því að fellibylurinn skall yfir. Sjálfboðaliðar hafa unnið þrekvirki við að dreifa hjálpargögnum, koma fólki í húsaskjól og koma í veg fyrir smitsjúkdóma sem oft blossa upp í hamförum sem þessum. Rauði krossinn í Mjanmar hefur verið í lykilhlutverki í hjálparstarfinu en um 30 þúsund sjálfboðaliðar hafa tekið þátt í hjálparstarfinu.

Ástandið í Mjanmar er ennþá mjög slæmt, nú tæpum mánuði eftir hamfarirnar, enda er það gríðarlegt verkefni að aðstoða allt að tvær milljónir manna. Margir þeirra sem misstu heimili sín þurfa ennþá að hafast við úti undir berum himni, hreint vatn er víða af skornum skammti og viðbúið að heilsufar fólks fari hrakandi.
 
Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans sendi nýlega út neyðarbeiðni vegna hjálparstarfsins í Mjanmar. Brýn þörf er fyrir meira fjármagn til hjálparstarfsins og einnig til uppbyggingarstarfs þegar neyðaraðstoðinni lýkur. Gert er ráð fyrir því að aðstoða um hálfa milljón manna á næstu þremur árum, m.a. með því að veita fólkinu húsaskjól, útvega hreint vatn, sinna heilsugæslu og bjóða áfallahjálp. Þegar fram í sækir á einnig að aðstoða fólk við að rækta matvæli svo það geti séð sér farborða.

Starf Rauða krossins á þeim stöðum, sem verst urðu úti, miðar einnig að því að koma í veg fyrir eða gera léttbærari þær hamfarir sem geta orðið í framtíðinni. Það verður gert með því að byggja upp neyðarvarnir og efla starfsemi Rauða kross félagsins á staðnum. Þannig getur neyðaraðstoð í kjölfar hamfara leitt til þess að neyðarvarnir verði öflugri – rétt eins og við þekkjum úr Rauða kross starfi okkar hér heima.