Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar aðstoða vegna jarðskjálftanna

30. maí 2008

Rauði kross Íslands virkjaði neyðarvarnarkerfi sitt í gær vegna jarðskjálftanna á Suðurlandi og brugðust sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar skjótt við beiðni um aðstoð. Sjálfboðaliðarnir fóru austur fyrir fjall á fjöldahjálparstöðvar sem opnaðar höfðu verið á Selfossi, Hveragerði, Stokkseyri og á fleiri stöðum. Þar sáu þeim um skráningu fólks og aðhlynningu, veittu sálrænan stuðning og hressingu og mat eftir föngum.  

Mikill viðbúnaður hefur verið vegna jarðskjálftanna og alls voru um 100 sjálfboðaliðar af skjálftasvæðinu, höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum að störfum í gær við fjöldahjálp, áfallahjálp og skyndihjálp. Rauði krossinn heldur áfram að veita aðstoð þeim sem urðu illa úti og fjöldahjálparstöðvar eru enn opnar við íþróttamiðstöðina í Hveragerði og í Vallarskóla á Selfossi. Einnig er hjálparsíminn 1717 opinn en þar er hægt að fá sálrænan stuðning.