Prjónahópskonur í vorferð

2. jún. 2008

Sjálfboðaliðar í Föt sem framlag fóru í vorferð á dögunum til að gera sér glaðan dag og ljúka vetrarstarfinu. Ferðinni var heitið á Suðurland og var byrjað í Þorkelsgerði í Selvoginum. Þar skoðuðu prjónakonurnar íslenskt handverk eftir Sigurbjörgu Eyjólfsdóttur og fengu sér dálitla hressingu. Síðan lá leiðin á Selfoss í heimsókn til Árnesingadeildar Rauða krossins. Sjálfboðaliðar í Árnesingadeild tóku vel á móti prjónahópnum með ýmiss konar heimagerðu góðmeti og kræsingum. Svæðisfulltrúi Rauða krossins á Suðurlandi og Suðurnesjum, Jóhanna Róbertsdóttir, kynnti starfið í þessum landshlutum og Ragnheiður Ágústsdóttir, starfsmaður Árnesingadeildar kynnti starf deildarinnar. Þá kynntu hópstjórar prjónahóps Kópavogsdeildar starf hópsins og færðu Árnesingadeild blóm að gjöf með þökkum fyrir góðar viðtökur.

Prjónahópurinn prjónar og saumar ungbarnaföt fyrir börn og fjölskyldur í neyð í Afríku. Hópurinn hittist mánaðarlega í sjálfboðamiðstöð deildarinnar í svokölluðu prjónakaffi þar sem garn, uppskriftir og prjónar eru á boðstólunum. Tilgangurinn með þessu verkefni er að mæta skorti á barnafötum á svæðum þar sem neyð ríkir en í almennum fatasöfnunum berst minnst af barnafötum. Handavinnan miðar að því að draga úr þessum skorti. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefninu eru hvattir til að hafa samband við deildina í síma 554 6626 eða á kopavogur@redcross.is.