18 milljónir fyrir notuð föt í neyðaraðstoð Rauða krossins

12. jún. 2008

Rauði kross Íslands hefur á síðustu vikum veitt 18 milljón króna framlag til neyðaraðstoðar úr fatasöfnunarverkefni sínu. Fyrstu 8 milljónirnar voru afhentar á aðalfundi Rauða krossins í maí og renna þær til Alþjóða Rauða krossins í Palestínu. Tíu milljónir fara svo í neyðaraðstoð Alþjóða Rauða krossins í Sómalíu þar sem hundruð þúsunda Sómala þjást af matar- og vatnsskorti í kjölfar harðnandi átaka og þurrka. Alþjóða Rauði krossinn sendi frá sér neyðarbeiðni í síðustu viku vegna ástandsins í Sómalíu sem er talið vera mesti harmleikur sem riðið hefur yfir landið á undanförnum áratug.  Stór hluti íbúa er örmagna eftir langvarandi átök og erfiða lífsbaráttu, en þurrkar í landinu hafa nú enn aukið á neyðarástand þar. Framlagið til Sómalíu var afhent við fatagám í Sorpu á Sævarhöfða í gær fyrir hönd allra þeirra sem gáfu notuð föt til félagsins á síðasta ári.  

Fjármagnið er fengið fyrir sölu á fatnaði sem fólk gefur Rauða krossinum, og fer allt framlagið til hjálparstarfa Alþjóða Rauða krossins.  Þetta er hæsta framlag sem fengist hefur fyrir notaðan fatnað á einu ári hér á landi síðan fatasöfnunarverkefnið hófst fyrir átta árum. Notuðum fatnaði má skila á allar Sorpustöðvar í gáma sem merktir eru Rauða krossinum. Skila má inn allri vefnaðarvöru bæði heilli og slitinni. Allt er hægt að nýta á einhvern hátt og skapa þannig verðmæti.

Alls komu um 130 sjálfboðaliðar að þessu verkefni Rauða krossins árið 2007 sem störfuðu launalaust við söfnun, flokkun og sölu fatnaðarins.  Allur hagnaður af verkefninu fer til alþjóðlegs hjálparstarfs. Verkefnið er samstarfsverkefni Rauða kross deildanna á höfuðborgarsvæðinu og landsskrifstofu félagsins.