Alþjóðadagur flóttamanna í dag

20. jún. 2008

Um 40 milljónir manna um allan heim hafa hrakist frá heimkynnum sínum vegna átaka, ofbeldis eða annarra orsaka. Af þeim eru tæplega 12 milljónir flóttamenn í öðru landi, en um 26 milljónir eru á vergangi innan eigin landamæra. Föstudaginn 20. júní, á Alþjóðadegi flóttamanna, er vakin sérstök athygli á aðstæðum þessa fólks um gjörvallan heim.

Í dómsmálaráðuneytinu verður Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra afhent kl. 13:45 fyrsta eintakið af Handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna í íslenskri þýðingu. Handbókin er gefin út af Mannréttindaskrifstofu Íslands og Rauða krossinum með styrk frá dómsmálaráðuneyti.  

Thomas Straub, fulltrúi skrifstofu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Svíþjóð afhendir ráðherra bókina.  Thomas er staddur í þriggja daga heimsókn til að kynna sér málefni flóttamanna og hælisleitenda hér á landi.

Kl. 16:00 hefst svo dagskrá á Akranesi, heimabæ næsta hóps flóttamanna sem kemur til Íslands í haust. Flóttamannaverkefni íslenskra stjórnvalda og Rauða krossins verður kynnt við kaffihúsið Skrúðgarðinn, í sérstöku tjaldi frá Flóttamannastofnun.  Þar gefst fólki einnig færi á að kynna sér ferlið sem flóttafólk þarf að ganga í gegnum áður en því er veitt hæli í öðru landi.  Fulltrúi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og bæjarstjórinn á Akranesi flytja ávarp.  Allir eru velkomnir.