Öflugt starf á liðnum vetri

23. jún. 2008

Kópavogsdeild hefur haldið úti öflugu sjálfboðaliðastarfi á liðnum vetri. Sífellt bætist í hóp sjálfboðaliða sem sinna ýmsum verkefnum á vegum deildarinnar. Í vetur hefur fjöldi sjálfboðaliða sinnt heimsóknaþjónustu á einkaheimilum, sambýlum aldraðra, í Sunnuhlíð, Rjóðrinu og Dvöl. Heimsóknavinirnir hitta gestgjafa sína reglulega og fara út að ganga með þeim, spjalla saman, fara á kaffihús, syngja og lesa svo eitthvað sé nefnt.

Sjálfboðaliðar vinna einnig með ungmennum, bæði íslenskum og erlendum, og stjórna vikulegum samverum þeirra þar sem ungmennin eru virkjuð á fjölbreyttan máta eins og með dansi, leiklist, föndri, söng og ýmiss konar fræðslu.

Alþjóðlegir foreldrar hittust í fyrsta skipti á haustmánuðum en það eru heimavinnandi foreldrar, íslenskir og erlendir, sem hittast á vikulegum samverum með lítil börn sín. Sjálfboðaliðar stjórna samverunum og sjá um ýmiss konar fræðslu og íslenskukennslu. Þetta er nýtt verkefni hjá deildinni og er það komið til að vera þar sem þörfin er greinilega fyrir hendi en góð mæting hefur verið á samverurnar í vetur.

Sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag hafa verið duglegir að vanda og hundruðir fatapakka með prjónaflíkum hafa farið frá deildinni í vetur. Sjálfboðaliðarnir prjóna og sauma flíkur sem eru svo sendar til barna og fjölskyldna í neyð í Afríku. Sífellt bætist í prjónahópinn og sjálfboðaliðarnir koma mánaðarlega með dýrindis prjónaflíkur í sjálfboðaliðamiðstöðina.

Fjöldi námskeiða hefur verið haldinn hjá deildinni í vetur, bæði fyrir sjálfboðaliða og almenning. Þar má helst nefna námskeið fyrir heimsóknavini, skyndihjálp, börn og umhverfi, sálrænan stuðning og slys á börnum. Deildin heldur námskeiðin reglulega yfir veturinn og verður engin breyting þar á í haust.

Alltaf er þörf fyrir sjálfboðaliða til að taka þátt í verkefnum deildarinnar. Á sumarmánuðunum er starfsemi verkefnanna í lágmarki en svo fer allt á fullt aftur í ágúst og september. Þeir sem hafa áhuga á að gerast sjálfboðaliðar og leggja okkur lið í starfinu eru hvattir til að hafa samband við deildina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á [email protected]