Nær 200 gengu til góðs í Kópavogi

6. okt. 2008

Um 200 sjálfboðaliðar á öllum aldri gengu til góðs í Kópavogi á laugardaginn en það er mun meiri þátttaka en víða annars staðar. Alls söfnuðust 1.688.000 krónur í baukana í Kópavogi og er það jafnframt mun betri árangur en náðist í mörgum nágrannasveitarfélaganna sé miðað við íbúafjölda. Kópavogsdeild kann öllum sem tóku þátt í Göngum til góðs í Kópavogi bestu þakkir fyrir framlagið.

Í ljósi aðstæðna í samfélaginu vorum við undir það búin að þátttaka yrði dræmari en fyrir tveimur árum þegar 350 manns gengu með okkur til góðs hér í bænum. Þetta gekk eftir en við getum þó verið stolt af framlagi Kópavogsbúa, hvort sem litið er til fjölda sjálfboðaliða eða til upphæðarinnar sem safnaðist. Sjálfboðaliðum okkar var nánast undantekningarlaust vel tekið, segir Garðar H. Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar og söfnunarstjóri í Kópavogi. Hann vill koma á framfæri sérstöku þakklæti til starfsfólks og þeirra sem mönnuðu söfnunarstöðvarnar og stóðu sína vakt frá því snemma að morgni og fram eftir deginum.

Landsskrifstofa Rauða krossins áætlar að um átta milljónir króna hafi safnast á höfuðborgarsvæðinu og er framlag Kópavogsbúa því drjúgt sé litið til íbúafjölda.

Rauði krossinn hvetur þá sem ekki gafst tækifæri til að gefa í söfnunina á laugardaginn til að hringja í söfnunarsíma Rauða krossins, 903 1010, 903 3030 og 903 5050. Þá dragast 1.000 kr., 3.000 kr. eða 5.000 kr. frá næsta símreikningi. Símarnir verða opnir út þessa viku.