Athvarfið Dvöl í Kópavogi 10 ára

9. okt. 2008

Í dag verður haldið upp á tíu ára afmæli Dvalar sem er í Reynihvammi 43. Athvarfið er samstarfsverkefni Kópavogsdeildar Rauða krossins, Kópavogsbæjar og svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Reykjanesi.

„Athvarfið hefur í tímans rás sannað gildi sitt og rofið einangrun fjölda fólks sem glímir við geðraskanir,” segir Þórður Ingþórsson forstöðumaður Dvalar. Þórður segir að frá upphafi hafi verið lögð áhersla á að efla sjálfstæði og virkni gesta og er fólk aðstoðað við að leita nýrra leiða í leik og starfi óski viðkomandi þess. Margir sækja staðinn eftir að hafa dvalist á geðdeild en allir komi til að njóta samveru.

„Dvöl er ekki meðferðarstofnun og gestir koma á eigin forsendum. Konur eru í meirihluta gesta. Þær eru öflugar í handavinnu og hafa útbúið fatapakka sem eru framlag Rauða krossins til fólks í vanþróuðum löndum,” segir Þórður.

Um 30 gestir sækja Dvöl reglulega. Fjölmennast er í athvarfinu í kringum hádegið en 10 til 14 gestir snæða hádegisverð í athvarfinu á virkum dögum.