Fataúthlutun hafin á ný

15. okt. 2008

Fatasöfnun Rauða krossins hóf fataúthlutun á ný í dag kl. 10 í nýju húsnæði félagsins að Laugavegi 116, í Reykjavík, eftir stutt hlé meðan á flutningi Fataflokkunarstöðvar Rauða krossins stóð. Fólk sem á þarf að halda getur leitað í úthlutunina á Laugavegi, á miðvikudögum milli kl. 10 og 16 , og fengið föt án endurgjalds.

Ráðgert er að úthluta að minnsta kosti vikulega og getur hver einstaklingur fengið um 4-5 kg af fötum í hvert sinn. Hér er um að ræða samstarfsverkefni deilda Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu.

Um 2.300 manns fengu úthlutað fötum í fyrra og á fyrstu sex mánuðum þessa árs hefur um 1.200 manns fengið föt hjá söfnuninni.

Suðurnesjadeild, Akureyrardeild og Skagafjarðardeild Rauða krossins úthluta einnig fatnaði. Þá útvega aðrar deildir fatnað ef til þeirra er leitað.

Auka fatabúðarinnar að Laugavegi 116 í Reykjavík reka deildir Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu fatabúðir að Laugavegi 12 í Reykjavík, sem ber nafnið L12, og við Strandgötu 24 Hafnarfirði þar sem notuð föt eru seld.

Fatasöfnun Rauða kross Íslands berast yfir 1.000 tonn á ári hverju sem gefin þeim þeim sem á þurfi að halda, bæði hér heima og erlendis. Það sem ekki er gefið er selt í fjáröflunarskyni. Rekstarafgangur fatasöfnunarinnar er notaður til að fjármagna verkefni Rauða kross Íslands erlendis.

Deildir Rauða krossins um allt land safna notuðum fatnaði sem allur nýtist til hjálparstarfs. Á höfuðborgarsvæðinu er Rauði krossinn í samstarfi við Sorpu um söfnun á fatnaði. Á öllum gámastöðum Sorpu er að finna söfnunargám Fatasöfnunar. Þeir eru hvítir og vandlega merktir Rauða krossinum.