Heimsóknavinur Kópavogsdeildar fer á slóðir Alþjóða Rauða krossins í Genf

17. okt. 2008

Bragi Óskarsson er heimsóknavinur sem sinnir heimsóknum á hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð. Þar stendur hann fyrir vikulegum söngstundum fyrir heimilisfólkið með fleiri heimsóknavinum. Bragi byrjaði sem sjálfboðaliði hjá deildinni fyrir rúmum tveimur árum síðan þegar hann hætti að vinna og fór á eftirlaun. Hann hafði séð auglýsingu um starf deildarinnar og kom í sjálfboðamiðstöðina til að fá frekari upplýsingar. Hann byrjaði svo fljótlega í Sunnuhlíð, fyrst við upplestur í afleysingum en síðan í sönghópnum.

Bragi hefur einnig farið í ferðir með heimilisfólkinu í Sunnuhlíð og verið því innan handar en Kópavogsdeildin stendur reglulega fyrir ferðum á söfn og í messur. Bragi fór einnig í allmerkilega ferð í september en þá fór hann til Genf á vegum Rauða krossins í árlega sjálfboðaliðaferð þar sem sjálfboðaliðarnir fá kynningu á starfsemi Alþjóða Rauða krossins. Hann var dreginn úr potti sjálfboðaliða hjá Kópavogsdeild og fór utan með konu sinni. Alls voru tæplega fjörutíu manns í ferðinni frá fleiri deildum Rauða krossins og varði hópurinn fjórum dögum í Genf.

Þar heimsótti hópurinn Rauða kross safnið og Alþjóðaráð Rauða krossins og fékk fræðslu um starfsemi þess. Bragi segir að safnið sé sérstakt, áhrifamikið og í raun alveg ólýsanlegt, maður verði að upplifa það sjálfur. Þá þáði hópurinn einnig boð í garðveislu hjá sendiherra Íslands í Sviss, Kristni Árnasyni. Að lokum var síðan farið yfir til Frakklands og upp á fjallstind sem er 3.800 metrar yfir sjávarmáli. Þar skall á snjókoma og Bragi lýsir upplifuninni sem „skemmtilegri en hrikalegri”. Hann segir einnig að ferðin hafi öll verið hin skemmtilegasta og að það hafi verið gaman að kynnast fólkinu í hópnum.

Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér heimsóknaþjónustu Kópavogsdeildar geta haft samband við deildina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is.