Eldhugar búa til brjóstsykur

22. okt. 2008

Eldhugar Kópavogsdeildar hittust á fimmtudaginn í síðustu viku eins og venja er á fimmtudögum og í þetta skiptið var alveg nýtt verkefni lagt fyrir hópinn, brjóstsykursgerð. Vatni, sykri og þrúgusykri var skellt í pott og soðið, síðan var bragefnunum blandað út í og þegar efniviðurinn hafði kólnað aðeins voru brjóstsykursmolar klipptir út, mótaðir í alls konar myndir og settir á sleikjóprik, allt undir góðri handleiðslu eldri sjálfboðaliða. Í þetta skiptið bjuggu Eldhugarnir til jarðarberja- og perubrjóstsykur. Á morgun heldur brjóstsykursgerðin áfram og ætla Eldhugarnir þá að prófa lakkrísbragð og kólabragð.

Afraksturinn verður síðan seldur á handverksmarkaði sem deildin mun standa fyrir 15. nóvember næstkomandi. Markaðurinn verður auglýstur nánar síðan en á honum munu finnast prjónaflíkur og annað handverk frá sjálfboðaliðum deildarinnar en einnig handverk alla leiðina frá Mósambík þar sem deildin er í vinadeildasamstarfi með Rauða kross deild í Maputo-héraði í Mósambík.

Eldhugar eru ungmenni á aldrinum 13-16 ára af íslenskum og erlendum uppruna sem hittast í sjálfboðamiðstöðinni á fimmtudögum kl. 17.30-19.00. Eldhugar vinna skemmtileg og skapandi verkefni sem miða að því að byggja betra samfélag án mismununar og fordóma. Unnið er með hugtök eins og vinátta, virðing og umburðarlyndi í gegnum ljósmyndun, leiklist, kynningar á erlendum menningarheimum og margt fleira.