Heimsóknavinir Rauða krossins í Sunnuhlíð

15. maí 2008

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands fagnar um þessar mundir 50 ára afmæli sínu og er óhætt að segja að eftir öll þessi ár liggi spor hennar víða. Eitt af áhersluverkefnum Kópavogsdeildar er að vinna gegn einsemd og félagslegri einangrun og því sinnir deildin meðal annars með öflugri heimsóknaþjónustu í hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð. Deildin hafði ásamt öðrum félagasamtökum í Kópavogi forystu um uppbyggingu hjúkrunarheimilisins.

Sunnuhlíð er fyrsta sérhannaða hjúkrunarheimilið fyrir aldraða á Íslandi en fyrsti íbúinn flutti þangað 25. maí 1982. Fyrstu sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar Rauða krossins tóku til starfa í Sunnuhlíð haustið 1984 eftir að hópur kvenna sýndi því áhuga að fara af stað með skipulagt sjálfboðið starf í þágu heimilismanna. Meðal fyrstu verka sjúkravina, sem nú nefnast heimsóknavinir, var að aðstoða heimilisfólk við handavinnu auk þess að aðstoða í samverustundum.

Á þeim 25 árum sem sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar hafa lagt heimilinu lið hefur margt breyst en núna eru um 20 sjálfboðaliðar að störfum í föstum verkefnum á heimilinu. Starf heimsóknavina í Sunnuhlíð er fjölbreytt og koma þeir á heimilið fjóra virka daga í viku. Eitt helsta hlutverk þeirra er umsjón og þátttaka í söngstundum, upplestri og við messuhald en sóknirnar í Kópavogi skiptast á að sjá um guðsþjónustur í Sunnuhlíð. Söngstundirnar hafa ávallt notið mikilla vinsælda og það er sérlega ánægjulegt hve þátttaka aðstandenda í söngstundunum er jafnan mikil.

Fyrir um það bil einu og hálfu ári bættist sú nýjung við að sjálfboðaliði fór að koma með hundinn sinn í heimsókn. Nú skiptast tveir sjálfboðaliðar á að koma vikulega með hunda sína í heimsókn heimilisfólki til mikillar ánægju. Kópavogsdeild Rauða krossins og starfsfólkið í Sunnuhlíð standa að aðventuhátíð fyrsta sunnudag í aðventu. Þar bjóða sjálfboðaliðar deildarinnar heimilisfólki og aðstandendum þeirra upp á jólasmákökur, heitt súkkulaði, söng og gleði. Á kirkjudegi aldraðra sér deildin um rútuferð með fylgd sjálfboðaliða og starfsfólks og hefur sú aðstoð verið kærkomin því margt heimilisfólk er bundið hjólastól. Ferðinni hefur síðan lokið með kaffisamsæti í safnaðarheimili Kópavogskirkju. Að hausti býður deildin upp á svokallaða haustferð en þá er farið í rútu út fyrir Kópavog til að skoða sýningar, söfn og fallega haustliti.

En það er ekki bara að sjálfboðaliðar deildarinnar leggi heimilinu lið því heimilisfólk Sunnuhlíðar hefur nú tvisvar sinnum afhent fjöldann allan af fallegum, handgerðum prjónateppum sem unnin eru í félagsstarfi heimilisins. Teppin nýtast vel í ungbarnapakka sem Rauði krossinn sendir til Malaví og Gambíu í Afríku en þar eru þeir afhentir einstæðum mæðrum og fjölskyldum í neyð. Það gleður um leið heimilismenn að geta lagt slíkt af mörkum.

Allt þetta samstarf Kópavogsdeildar Rauða krossins og Sunnuhlíðar hefur jafnan verið með miklum ágætum og öllum sem að því koma til gleði og skemmtunar. Samstarfið eykur tengsl heimilismanna og starfsfólks út í samfélagið með kynnum við fjölda fólks. Samstarfið hefur því verið Sunnuhlíð afar mikilvægt og verður seint ofmetið.