Opnar samverur og aðstoð

3. nóv. 2008

Sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar er opin alla virka daga frá kl. 10-16 og er fólk ávallt velkomið að kíkja í heimsókn í kaffi og spjall. Deildin býður einnig upp á opnar samverur fyrir ýmsa hópa samfélagsins. Eldhugar eru ungmenni á aldrinum 13-16 sem hittast í sjálfboðamiðstöðinn á fimmtudögum kl. 17.30-19.00, hópur kvenna á öllum aldri hittist síðasta miðvikudag hvers mánðar kl. 16-18 í svokölluðu prjónakaffi þar sem þær sinna handavinnu og svo hittist hópur mæðra frá ýmsum löndum með lítil börn sín á fimmtudögum kl. 10-11.30. Þátttaka í þessum samverum er ókeypis og opin öllum.

Við vekjum líka athygli á ýmis konar þjónustu sem við hvetjum fólk til að nýta sér. Í fyrsta lagi má nefna námskeið í sálrænum stuðningi sem verður haldið 8. desember. Námskeiðið er án endurgjalds og er hægt að skrá sig með því að smella hér. Einnig bjóðum við upp á heimsóknaþjónustu þar sem heimsóknavinir heimsækja gestgjafa á öllum aldri og veita þeim félagsskap, nærveru og hlýju. Þá má benda á Dvöl, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, sem er opið á virkum dögum kl. 9-16 og á laugardögum kl. 11-14. Hjálparsíminn 1717 er gjaldfrjáls sími sem er opinn allan sólarhringinn og þangað er hægt að leita eftir ráðgjöf, hlustun og stuðningi. Rauði krossinn úthlutar líka notuðum fötum og fer úthlutunin fyrir höfuðborgarsvæðið fram í Reykjavík að Laugavegi 116 á miðvikudögum kl. 10-14.

Þá er ráðgjafaver fyrir Kópavogsbúa opið í síma 800 5500. Kópavogsdeildin, ásamt Kópavogsbæ, prestum í Kópavogi, Menntaskólanum í Kópavogi, heilsugæslunni og Mæðrastyrksnefnd hafa tekið höndum saman til að styðja Kópavogsbúa í því erfiða ástandi sem skapast hefur við hrun á fjármálamarkaði. Í ráðgjafaveri svara félagsráðgjafar, prestar og sálfræðingar símanum og veita liðsinni sitt vegna vanlíðan og erfiðleika. Þar er einnig hægt að fá upplýsingar um hvert er hægt að leita eftir frekari aðstoð. Ráðgjafaverið er opið virka daga frá kl. 9-17.