Handverksmarkaður Rauða krossins 15. nóvember

13. nóv. 2008

Hér er tækifæri til að verða sér úti um fallegt handverk, setja það jafnvel í jólapakkana og styrkja um leið gott málefni!

Kópavogsdeild Rauða krossins heldur handverksmarkað laugardaginn 15. nóvember kl. 10-18 í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11. Markaðurinn er lokaverkefni nemenda Menntaskólans í Kópavogi í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf. Einnig koma fleiri sjálfboðaliðar úr ýmsum verkefnum Kópavogsdeildar að markaðnum.

Selt verður fjölbreytt handverk sjálfboðaliða deildarinnar eins og fallegar prjónavörur, jólakort og sælgæti sem yngstu sjálfboðaliðar deildarinnar úr Enter og Eldhugum hafa búið til. Auk þess verður handverk frá Mósambík til sölu, s.s. litríkar töskur, skartgripir, batíkmyndir, box og skálar úr svart- og sandelviði.

Allur ágóði af markaðnum rennur til að styrkja uppbyggingu Rauðakrossdeildar í Mapútó-héraði í Mósambík en Kópavogsdeild Rauða krossins er í vinadeildasamstarfi við þá deild. Aðstæður í Mósambík og á Íslandi eru um margt ólíkar þrátt fyrir erfitt árferði á Íslandi um þessar mundir. Mósambík glímir við mikla útbreiðslu alnæmis þar sem um 16% landsmanna eru smitaðir. Uppskerubrestir eru algengir vegna tíðra flóða og fellibylja en um 85% landsmanna byggja afkomu sína á akuryrkju. Um 60% þjóðarinnar hafa aðgang að hreinu vatni og 50% að heilsugæslu. Lífslíkur eru um 43 ár og í samanburði við lífsgæði í öðrum löndum er landið í 172. sæti af 177.

Sjálfboðaliðar Rauða kross Íslands eru langflestir í verkefnum sem stuðla að auknum lífsgæðum Íslendinga sem búa við þrengingar og mótlæti. Með handverksmarkaðnum mun framtak þeirra einnig koma sér vel fyrir fólk í Mósambík.

Áhugaverðar vefsíður:
Vefsíða Rauða krossins í Mósambík: www.redcross.org.mz
Upplýsingar um Rauðakrossstarf í Mósambík á vegum Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans: www.ifrc.org/where/country/cn6.asp?countryid=120