Ókeypis fjármálanámskeið haldin hjá Kópavogsdeild

12. nóv. 2008

Tekist hefur samstarf með Kópavogsdeild, Kópavogsbæ og Neytendasamtökunum um að bjóða bæjarbúum uppá fjármálanámskeið án endurgjalds. Námskeiðin verða tvö fyrst um sinn, það fyrra 24. nóvember og það síðara 1. desember. Að sögn Garðars H. Guðjónssonar, formanns Kópavogsdeildar, verður metið í framhaldinu hvort ástæða sé til að bjóða fleiri námskeið.

Námskeiðin eru liður í aðgerðum sem Rauði krossinn hefur gripið til að undanförnu til þess að bregðast við ástandinu í samfélaginu. Verði eftirspurnin mikil kemur vel til greina að bjóða uppá fleiri námskeið. Markmiðið með námskeiðunum er að hjálpa fólki að hagræða í heimilisrekstrinum og öðlast góða yfirsýn yfir fjármálin, segir Garðar.
 
Námskeiðin verða haldin í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar 24. nóvember og 1. desember kl. 17.30-19.30. Þótt námskeiðin séu án endurgjalds er nauðsynlegt að skrá sig til þátttöku. Hámarksfjöldi á hverju námskeiði er 25. Leiðbeinandi er á vegum Neytendasamtakanna.
 
Allar nánari upplýsingar og skráning í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is