Líf og fjör hjá Alþjóðlegum foreldrum Kópavogsdeildar

19. des. 2011

Mikið líf og fjör hefur verið í Rauðakrosshúsinu í Kópavogi alla fimmtudagsmorgna í haust þegar foreldrar af fjölbreyttum uppruna hittast með börn sín til að taka þátt í verkefninu Alþjóðlegir foreldrar. Foreldrarnir koma frá hinum ýmsu löndum eins og Póllandi, Bretlandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi, Litháen, Portúgal, Rússlandi, Kína, Japan og Íslandi. Markmið deildarinnar með verkefninu er að rjúfa félagslega einangrun innflytjenda með börn á aldrinum 0-6 ára. Allir foreldar, innflytjendur og innfæddir eru innilega velkomnir, hvort sem þeir tala enga íslensku eða litla.

Í haust hefur verið boðið upp á ýmis konar fræðslu eða viðburði aðra hverja viku sem tengjast börnum, innflytjendum eða áhugasviði hópsins hverju sinni. Má þar nefna svefnráðgjöf þar sem foreldrar gátu fengið ráðgjöf varðandi svefnvenjur ungbarna. Hópurinn fékk grunnkennslu í prjónaskap og fræðslu um náttúrulegar leiðir til að vinna gegn magakveisu hjá börnum. Ungbarnanudd var einnig á dagskrá, sem og tónlist fyrir börn þegar Tónagull kom í heimsókn og vakti það mikla lukku. Þá voru haldnar samverur á sex vikna fresti þar sem þátttakendur komu með „smakk að heiman”, hver kemur með smárétt eða þjóðlegan frá sínu heimalandi til að kynna fyrir hinum. Sumir fimmtudagar voru aðeins helgaðir spjalli og almennri samveru foreldra þar sem þeir fengu tækifæri til að kynnast á meðan börnin léku sér. Hópurinn heldur einnig úti samskiptasíðu á netinu þar sem upplýsingum varðandi samverur og verkefnið er dreift. Foreldrar nýta einnig síðuna til að skiptast á upplýsingum og fróðleik til að styðja hvert annað og upplýsa.

Íslenskir sjálfboðaliðar taka þátt í verkefninu, halda utan um samverur í samstarfi við starfsmenn deildarinnar, dagskrárgerð og framkvæmd verkefnisins.

Verkefnið fer aftur af stað í byrjun janúar og ef þú hefur áhuga á að taka þátt eða gerast sjálfboðaliði getur þú haft samband við deildina í síma 554 6626 eða sent póst á netfangið kopavogur@redcross.is.