Fjöldi fólks fær fræðslu um sálrænan stuðning

17. nóv. 2008

Fjöldi fólks hefur að undanförnu sótt námskeið Kópavogsdeildar um sálrænan stuðning en námskeiðin hafa verið haldin án endurgjalds. Síðasta námskeiðið að sinni verður haldið mánudaginn 8. desember næstkomandi og er enn unnt að skrá sig til þátttöku. Námskeiðin eru liður í aðgerðum Kópavogsdeildar vegna efnahagskreppunnar.

Á námskeiðinu fræðast þátttakendur um gildi sálræns stuðnings í aðstæðum sem geta valdið áföllum. Þátttakendur læra að gera sér betur grein fyrir eðlilegum viðbrögðum fólks sem lendir í sársaukafullum aðstæðum og hvernig þeir geti veitt stuðning og umhyggju.
 
Viðfangsefni eru meðal annars: Mismunandi tegundir áfalla, áhrif alvarlegra atvika á einstaklinginn, sálræn skyndihjálp, stuðningur við úrvinnslu alvarlegs atviks, sorg og sorgarferli. Kennari er Margrét Blöndal hjúkrunarfræðingur.