Ungir og aldnir vinna saman að því að safna fyrir Rauðakrossdeildina í Maputo

Kristínu Heiðu Kristinsdóttur blaðamann á Morgunblaðinu

14. nóv. 2008

Kópavogsdeild Rauða krossins stendur fyrir handverksmarkaði til styrktar Rauðakrossdeild í Mósambík. Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 14.11.2008.

„Það sem er svo frábært við þetta er að á markaðnum verða meðal annars handgerðar vörur frá Mósambík til sölu, en tilgangurinn er einmitt að styrkja Rauðakrossdeild Maputo-héraðs í Mósambík,” segir Linda Ósk Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Kópavogsdeildar Rauða krossins, um Handverksmarkað Rauða krossins sem verður á morgun, laugardag, í sjálfboðamiðstöðinni Hamraborg 11.

„Markaðurinn er samvinnuverkefni sjálfboðaliða úr nokkrum verkefnum okkar en hann er lokaverkefni hjá þeim nemendum í Menntaskólanum í Kópavogi sem eru í sjálfboðaliðaáfanga þar. Hingað til hafa þetta verið fatamarkaðir til að afla fjár til einhvers ákveðins verkefnis. Núna fá krakkarnir nokkra aðra hópa til liðs við sig, sem verður til þess að fjölbreyttari vörur verða í boði. Krakkarnir í Enter-hópnum okkar sem eru 9-12 ára börn úr nýbúadeild Hjallaskóla koma til okkar einu sinni í viku og hafa verið að búa til jólakort og jólamerkimiða sem verða þarna til sölu. Unglingarnir sem kalla sig Eldhugana og eru 13-16 ára koma líka einu sinni í viku til okkar, en þau hafa verið að búa til brjóstsykur og sleikipinna sem seldir verða á markaðnum.«

Íslenskar prjónavörur og handverk frá Mósambík
Prjónahópurinn innan Rauða krossins, sem er stór hópur ötulla kvenna sem hafa verið duglegar við að prjóna flíkur í kassa sem sendir eru til Malaví í neyðaraðstoð, hafa ekki látið sig muna um að prjóna allskonar flíkur og vörur sem þær gefa á markaðinn á morgun. „Og svo er það fallega handverkið frá Mósambík sem verður til sölu, allskonar töskur, batik, skartgripir og margt fleira sem fólkið þar hefur gert í höndunum. Þetta eru því sannarlega fair trade-viðskipti, því kona sem er starfsmaður okkar þarna úti, keypti vörurnar beint af þeim sem búa þær til. „Linda segir að sér finnist frábært að ungir og gamlir, íslenskir og erlendir einstaklingar vinni saman að markaðnum og búi til vörurnar sem þar verður boðið upp á. Og allt er unnið í sjálfboðavinnu.

Rauðakrossdeildin í Kópavogi er í formlegu sambandi við vinadeild úti í Mósambík og allur ágóði af markaðnum rennur til að styrkja ungmenni í Mapútó-héraði í Mósambík. Þar er þörfin mikil, um 16% landsmanna eru til dæmis smituð af alnæmi.
Ötular Þær hafa verið duglegar konurnar í prjónahóp Rauðakrossdeildar Kópavogs við að prjóna fyrir markaðinn á morgun.

Lærði handverkið af pabba
Á MARKAÐINUM á morgun verða meðal annars til sölu töskur og skartgripir sem João Balate hefur búið til, en hann er búsettur í Maputo. Joao er hæglátur ungur maður á þrítugsaldri. Söluhornið hans er í miðbæ Maputo. Hann er þar daglega ásamt félögum sínum að selja handverk. João býr með foreldrum sínum og fimm systkinum í Maxaquene-hverfinu. „Pabbi er prestur og er með kirkju heima þannig að það er oft mikið af fólki sem kemur um helgar og þá þarf maður ekkert að fara annað til að hitta fólk. Ég fer nú samt stundum út með vinum mínum.” Annars er faðir hans lasinn núna, er hálflamaður öðrum megin.

Safnar fyrir þaki yfir höfuðið

Joao kláraði 4. bekk og hefur verið að vinna árum saman til að sjá fyrir sér og aðstoða foreldra sína. „Ég fór til Suður-Afríku og vann þar með föðurbróður mínum í mörg ár en kom aftur hingað eftir að hann dó. Við unnum við garðyrkju og alls kyns byggingarvinnu.”

Hann selur körfur og töskur en saumar utan um sumar úr skrautlegum capulana-dúkum, auk þess sem hann fæst við að búa til perluhringa og armbönd þegar hann er ekki að selja. Hann fléttar mikið af töskunum sjálfur. „Bræður mínir gera eitthvað af þessu. Við lærðum af pabba sem greip í þetta öðru hvoru á meðan hann gat,” segir
João sem er að safna fyrir eigin þaki yfir höfuðið. „Það verða allir að flytja að heiman og lifa eigin lífi. Það verður ekki strax hjá mér, en það kemur að því einn góðan veðurdag.”