Handverksmarkaðurinn í dag fer vel af stað!

15. nóv. 2008

Mikil aðsókn hefur verið á handverksmarkað deildarinnar sem hófst kl. 10 í morgun. Margir áhugasamir hafa komið og gert góð kaup á ýmis konar prjónavörum og öðru handverki sem sjálfboðaliðar deildarinnar hafa búið til. Þá hefur verið sérstaklega mikill áhugi á handverki frá Mósambík en til sölu eru batik-myndir, armbönd, hálsmen, box í ýmsum stærðum og gerðum ásamt töskum. Þögult uppboð er í gangi á sérlega veglegum hlutum frá Mósambík. Einnig er hægt að gera góð kaup á kökum og brjóstsykri sem hafa verið búnir til sérstaklega fyrir markaðinn. Jólakort og jólamerkimiðar, handskreyttir af yngstu þátttakendum okkar í Rauða kross starfi – Enter-börnunum – hafa líka vakið mikla lukku meðal fólks á markaðinum.

Markaðurinn er staðsettur í sjálfboðamiðstöð deildarinnar í Hamraborg 11, 2. hæð, og er opinn til kl. 18 í dag. Það er tilvalið að kaupa handverk til að setja í jólapakkana og styrkja gott málefni í leiðinni!