Nú reynir á

Garðar H. Guðjónsson og Kristján Sturluson

18. nóv. 2008

Rauði krossinn hefur þann tilgang að koma fólki til hjálpar þegar á reynir. Það hefur hann gert í stóru og smáu, hér heima og erlendis, og nú er óhætt að segja að mjög reyni á hlutverk félagsins í íslensku samfélagi. Rauði krossinn hefur þegar ráðist í aðgerðir til þess að aðstoða fólk í gegnum yfirstandandi þrengingar og mun beita kröftum sínum í náinni framtíð til þess að lina þjáningar þeirra sem eiga um sárt að binda vegna efnhagsástandsins.

Það gerir Rauði krossinn með margvíslegum hætti. Félagið og deildir þess taka nú þátt í samráði við ríkið, sveitarfélög, kirkjuna og marga fleiri um viðbrögð við ástandinu.

Aðeins fáeinum dögum eftir bankahrunið, þegar ljóst var að fjölmargar fjölskyldur myndu lenda í verulegum hremmingum, tóku deildir félagsins ákvörðun um að bjóða almenningi viðamikla fræðslu í sálrænum stuðningi. Fjölmörg námskeið hafa verið haldin án endurgjalds og hefur aðsókn verið mikil.

Aðstoð innanlands

Þá ákváðu deildir sem standa að rekstri athvarfa fyrir fólk með geðraskanir að vekja meiri athygli á rekstrinum en endranær. Í athvörfunum Læk í Hafnarfirði og Dvöl í Kópavogi er nú opið hús á hverjum laugardegi og geta gestir notið þar hádegisverðar án endurgjalds.

Í þann mund sem kreppan skall á hóf félagið á ný fataúthlutun á höfuðborgarsvæðinu en hún hafði legið niðri um skeið vegna flutninga og skipulagsbreytinga. Um 100 manns hafa þegið þessa aðstoð vikulega síðan. Í þessu sambandi er einnig vert að minna á að gera má hagstæð fatakaup í þremur fataverslunum Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu.
Hjálparsíminn 1717 er verkefni deilda Rauða krossins um allt land. Hann hefur reynst mörgum vel í því hörmulega ástandi sem skapast hefur í þjóðfélaginu.

Rauði krossinn hefur um árabil verið öflugur þátttakandi í aðstoð við einstaklinga og fjölskyldur fyrir jól og aðrar hátíðir í samvinnu við Hjálparstarf kirkjunnar, mæðrastyrksnefndir og fleiri. Ljóst er að reyna mun á þátttöku félagsins nú í enn ríkari mæli en áður. Stjórn félagsins ákvað því á dögunum að grípa til fjármuna úr neyðarsjóði til þess að gera deildum unnt að mæta vaxandi þörf fyrir aðstoð.
Auk þess sem að ofan er talið er ástæða til að minna á heimsóknaþjónustu og önnur rótgróin samfélagsverkefni félagsins. Þá standa sjálfboðamiðstöðvar deildanna að sjálfsögðu öllum opnar og þar eru reglulega samverur fyrir unga og aldna sem allir hafa aðgang að.

Alþjóðlegar skyldur

Um leið og rætt er um hve víða Rauði krossinn kemur að stuðningi við þá sem standa höllum fæti í íslensku samfélagi er mikilvægt að hafa í huga að félagið hefur jafnframt ríkar skyldur við fólk í löndum þar sem fátækt er landlæg, skæðir sjúkdómar ógna almenningi og átök og hamfarir valda miklum hörmungum. Það er því sérstakt fagnaðarefni að um leið og stjórn félagsins ákvað að verja 20 milljónum króna aukalega til neyðaraðstoðar innanlands tók hún ákvörðun um að standa við skuldbindingar félagsins í neyðaraðstoð erlendis og standa undir þeim væntingum sem gerðar eru til Rauða kross Íslands sem öflugs landsfélags innan Rauða kross hreyfingarinnar. Verkefni félagsins erlendis koma ekki niður á þeirri aðstoð sem það veitir innanlands, né öfugt. Félagið hefur alla burði og einlægan ásetning til að sinna skyldum sínum við þá sem þurfa á liðsinni þess að halda.

Rauði kross Íslands er hluti af stærstu mannúðarhreyfingu veraldar þar sem landsfélögin hafa skyldur til gagnkvæmrar hjálpar. Nú á meðan við Íslendingar væntum skilnings og stuðnings annarra ríkja í efnahagsþrengingum okkar er hollt að hafa þetta í huga.

Garðar á sæti í stjórn Rauða kross Íslands og er formaður Kópavogsdeildar. Kristján er framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. nóvember síðastliðinn.