Nemendur í Hjallaskóla fá fræðslu um starf Kópavogsdeildar

24. nóv. 2008

Um fimmtíu nemendur unglingadeildar Hjallaskóla komu í sjálfboðamiðstöðina fyrir helgi og fengu fræðslu um starf deildarinnar. Fræðslan var hluti af þemadögum í skólanum sem stóðu yfir í síðustu viku og var þemað mannúð.

Í sjálfboðamiðstöðinni fengu nemendurnir fræðslu um heimsóknaþjónustuna, fataverkefnið, verkefni tengd innflytjendum, vinadeildasamstarfið og að sjálfsögðu Eldhugana en það er starf sem þessum nemendum stendur einmitt til boða að taka þátt í. Þeir sáu myndband úr starfinu frá því í fyrra og myndir úr starfi síðustu mánaða. Eldhugarnir hittast á fimmtudögum kl. hálfsex og er opið fyrir alla 13-16 ára Kópavogsbúa.

Starfsmenn deildarinnar halda reglulega kynningar á starfsemi og verkefnum deildarinnar af ýmsu tilefni. Annaðhvort eru einstök verkefni kynnt fyrir áhugasama hópa eða allt starf deildarinnar. Þá koma hópar í sjálfboðamiðstöðina eins og nemendur Hjallaskóla gerðu í gær eða starfsmennirnir fara með kynningar til hópanna.