Rauði krossinn og Mæðrastyrksnefnd veita neyðaraðstoð í Kópavogi

26. nóv. 2008

Kópavogsdeild Rauða krossins og Mæðrastyrksnefnd Kópavogs hafa gert samkomulag um neyðaraðstoð við bágstadda einstaklinga og fjölskyldur í Kópavogi fyrir jólin. Kópavogsdeild Rauða krossins hefur stóraukið framlag sitt vegna aðstoðarinnar miðað við fyrri ár enda er búist við að fleiri leiti aðstoðar nú.
 
Rauði krossinn og Mæðrastyrksnefnd hvetja fyrirtæki og stofnanir til að styrkja hjálparstarfið fyrir jólin með vörum eða fjárframlögum. Rauði krossinn þarf á talsverðum fjölda sjálfboðaliða að halda vegna verkefnisins og eru áhugasamir hvattir til að hafa samband í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is.
 
Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar og Mæðrastyrksnefndar úthluta matvörum, fatnaði og fleiri nauðsynjum vegna jólanna í húsnæði nefndarinnar að Fannborg 5 dagana 15.-19. desember kl. 18-20. Tekið er við umsóknum hjá Kópavogsdeild, Hamraborg 11, alla virka daga kl. 10-16. Mæðrastyrksnefnd tekur við umsóknum 9., 10. og 11. desember kl. 16.30-18.00 í húsnæði sínu.
 
Auk tímabundinnar aðstoðar fyrir jólin úthlutar Rauði krossinn notuðum fatnaði alla miðvikudaga kl. 10-14 að Laugavegi 116, Grettisgötumegin.